Monday, March 21, 2011

Það er búið að vera skítaveður, í samanburði við Ísland er búið að vera fínt veður, en miðað við vorið sem var komið er búið að vera skítaveður. En samkvæmt útvarpinu í dag var þetta bara farewell á veturinn svo nú kemur vorið aftur og svo sumarið fljótlega. Íslendingurinn er ekki að hata það. Það er samt skondið hvað kuldinn (aftur: ekki kalt á íslenskan en samt alveg kalt) verður lítið mál þegar maður er á hjóli. Mér verður sjaldnast kalt því maður er alltaf á almennilegri hreyfingu. Þetta ætti maður að vita en íslenska Dísa hoppar bara inn og út úr bíl. Salzburg Dísa er fersk á hjólinu alla daga. Mér líka betur við það síðara.


Það var íslenskt rigningarveður fim., fös. og laugardag. Á sunnudaginn fór sólin að skína þrátt fyrir að það væri ennþá pínu kalt. En í tilefni sólar hjólaði ég niður í bæ, settist þar á bekk og las bók. Hjólaði svo á kaffihús, fékk mér kaffi og las áfram. Hjólaði svo heim og kláraði bókina. Ég mun seint væla um álag og stress í Salz.

Mozartinn verður að vera reglulega.



Ég ætla að taka myndir af skólanum fljótlega. Háskólinn er í mörgum byggingum um borgina en bygging lagadeildarinnar er í hjarta miðbæjarins, á milli aðal torgsins og aðal verslunargötunnar í gamla bænum. Það er skondið að sitja inn í margra aldar gamalli byggingu v. geimskip HR.

Annars er ég búin að breyta stillingum á blogginu, nú ætti allt að vera á ensku og nú geta allir commentað undir færslur án þess að skrá sig á einhvern stjarnfræðilegan hátt.

Friday, March 18, 2011

Vínarborgin mín

Ég vissi ekki að bloggsíðan væri á þýsku - ég hélt að mitt svæði til að vinna á væri það bara. Ég fékk ekki að velja tungumál en mér skilst að ef þið ætlið að commenta þá eru lýsingar á þýsku, afsakið það. Ég vona að þið sem hafið áhuga ráðið fram úr því :-)

Ég fór til Vínar um síðustu helgi, stelpan sem leigir með mér kemur frá Tékklandi og er að skrifa meistaratirgerðina sína. Hún verður hérna út apríl, ég hugsa (og vona) að ég verði ein eftir það. En hún er virkilega indæl, hress og skemmtileg. Hún var Eramsus skiptinemi eins og ég fyrir þremur árum svo það er gott að hafa einhvern sem þekkir þetta allt saman. Hún er á bíl hérna og ákvað að heimsækja vin sinn í Vín svo ég fékk að fljóta með í gömlu borgina mína. Það var fáránlega skemmtileg helgi. Ég kom um kvöldið á föstudegi og eyddi því með Sabinu (host-mömmunni frá því 2005-2006) og manninum hennar. Þau voru að spila við nágranna sína en við eyddum áramótunum heima hjá þeim þegar ég bjó þar. Við drukkum rauðvín og spjölluðum. Ég fór svo niður í bæ og hitti Önnu (host-systur) og vini hennar en flestar vinkonur hennar þekki ég vel enda eyddi ég miklum tíma með þeim á þeim tíma.

Ég og Anna sys.

Á hverjum laugardegi borðar Anna (og bróðir hennar Stefan), hádegismat með pabba sínum, konu hans og ömmu og afa. Ég fór alltaf með og ég elskaði það. Það var svona mesta "fjölskyldu-thing" sem ég gerði og þykir mér voða vænt um gömlu hjónin sem buðu mér í mat í hverri viku. Þau voru því hissa að sjá mig fimm árum síðar. Allt var eins, þau borðuðu á sama kínverska staðnum, litu alveg eins út nema afinn er orðinn heldur gamall og lúinn.

Eftir matinn fórum við Anna að versla á Mariahilfer Strasse, það var næs. Þegar ég bjó í Vín var evran undir 70 kalli, nú er hún 100 kalli meira. Það þýðir auðvitað að ég keypti endalaust af fötum þá en ekki eins mikið í dag. Good times. Um kvöldið fórum við svo til Ninu, vinkonu Önnu og drukkum þar og spjölluðum. Við fórum á klúbb sem er stærsti klúbbur í Vín en um 6000 manns fljóta þar í gegn á hverju kvöldi. Það var hresst. Á sunnudeginum var svo hinn vikulegi Mittagsessen hjá Sabinu og eldaði dúllan uppáhalds matinn minn.

Ég var fáránlega heppin með host-fjölskyldu þegar ég fór út og við höfum haldið góðu sambandi síðan. Þau komu öll fjögur til Íslands sumarið 2007 og voru hjá okkur í þrjár vikur. Ég fór svo sumarið 2008 og við Óskar sumarið 2009. Ég græddi ansi margt á þessu ári í Vín. Áfram AFS.


Ég var að koma af McCafé, það er McDonalds hérna rétt hjá svo ég hjólaði þangað í myrkrinu áðan. Ég fékk mér stóran kaffi og las Alkemistann. Ég las bókina síðast í Vín fyrir sex árum svo það er kominn tími til að lesa hana að nýju.

Í gær fór ég á sama stað, drakk sama kaffið og lærði þýsku. Austurríkismenn myndu eflaust skamma mig fyrir að velja McCafé af öllum kaffihúsum en svona eru hermannaáhrif USA mikil fyrir Íslendinginn.

Thursday, March 17, 2011

Lífið í Salzburg I

Ég hef nokkrum sinnum hugsað hvort ég ætti að blogga hérna úti. Einhvern veginn er Facebook nóg en stundum langar mig einfaldlega að deila einhverju mis ómerkilegu og smávægilegu og þá er Facebook-status of stutt. Það sem hefur haldið aftur að mér er að með því að blogga er svolítið eins og hafi frá einhverju merkilegu að segja. Svo er ekki. En ég veit að vinkonurnar lesa og gömlu hjónin heima og það er nóg til þess að mig langi að prufa. Hvort sem það verður ein færsla eða reglulegar - það kemur í ljós. Vinkonurnar og fjölskyldan spyrja mikið hvernig gangi og hvernig sé svo það getur verið skemmtilegra að skrifa það almennilega í færslu heldur en að henda nokkrum setningum hingað og þangað í tölvupósti, símtölum, sms-um og Facebook msg. Elsku mamma mín og pabbi eru svo hvorug með Facebook. Ég hef u.þ.b. 15 sinnum reynt að tala fyrir mömmu um að mæta á svæðið en hún þverneitar. Hún sér því enga statusa né myndir en hún myndi lesa bloggið mitt með bros á vör þessi elska

Salzburg er undurfallegur staður. Ég er dolfallin yfir nánast öllu, byggingarnar eru eldgamlar og flottar. Kastalar í fjöllunum - sem eru nánast allan hringinn í kringum borgina. Það er gróður út um allt sem þýðir að staðurinn mun einungis verða fallegri með tímanum þegar allt verður grænt. Hér er hreint og það eingungis nokkrar mínútur að hjóla út í sveit. Fyrir landsbyggðartúttuna er það ákveðinn sigur.

Ég prufaði að hjóla aðra leið heim um daginn úr skólanum og hjólaði þá framhjá þessum fallega garði.

Í gegnum Salzburg rennur áin Salzach sem gerir þetta allt saman ennþá fallegra.

Ef ég ætti alvöru myndavél væru svona myndir tíðari og flottari en það verður að bíða betri tíma.


Það hefur kannski ekki farið fram hjá mínu fólki að vorið er komið í Salzburg.

Ég er í þýskukúrsi hérna, hann er á vegum háskólans en er ekki á meistarastigi svo ég fæ hann ekki metinn heima. Ég ætla að sitja hann þrátt fyrir það enda kom ég hingað til að bæta þýskuna mína. Ég fór í tíma í morgun, hjólandi á fullu spani í rigningunni og settist svo á kaffihús eftir tímann og gerði heimavinnuna. Ég hef gott af því að sitja svona kúrs þar sem ég hef aldrei lært þýsku í skóla. Það sem ég kann lærði ég í Vín fyrir um sex árum síðan. Síðan þá hef ég eingöngu talað endrum og sinnum þegar svo ber undir. Ég hef þó náð að halda henni ágætlega vel við. Ég fór til Vínar um síðustu helgi og gekk furðu vel að tala við vinkonurnar og hostfjölskylduna. Ég gerði samræðurnar ekki vandræðalegar með nærveru minni (þið vitið hvað ég meina) heldur skyldi hvað verið var að ræða og tók þátt. Mig minnti einhvern veginn að ég væri slakari. Þrátt fyrir þessar hetjulegu lýsingar er ég ekki góð í þýsku, ég tala eins og smábarn og kann málfræðireglurnar ekki (sem eru rusalegar).

Í dag er grenjandi rigning, í fyrsta sinn síðan ég kom hingað. Í tilefni af því þvoði ég þvott, skúraði gólfin og þurrkaði af. Ég ætla að horfa á góða mynd í kvöld og narta í eitthvað gott og vonast til að veðrið á morgun verði pretty svo ég geti hjólað út í sveit.